Brautskráðir doktorar

Um vefsíðu


Hvaða störf stunda brautskráðir doktorar við Háskóla Íslands að námi loknu og hvar í heiminum starfa þeir?


Vefsíða brautskráðra doktora frá Háskóla Íslands veitir svör við þessum mikilvægu spurningum en hún inniheldur opinberar upplýsingar um rannsóknir og störf doktorsnema sem brautskrást hafa frá árinu 2010. Vefsíðan veitir gagnlegar upplýsingar fyrir núverandi doktorsnema sem og útskrifaða doktora sem vilja styrkja tengslanet sitt og kanna starfsmöguleika að námi loknu. Aðrir sem gætu haft gagn af vefsíðunni eru leiðbeinendur doktorsnema, starfsmenn framhaldsnáms við HÍ, starfsráðgjafar, vinnumarkaðssérfræðingar og þau sem vinna við nýsköpun. Síðast en ekki síst mun vefsíðan gagnast fyrirtækjum og stofnunum sem leitast við að ráða framúrskarandi starfsmenn til starfa innan vaxandi íslensks og alþjóðlegs þekkingarhagkerfis.


Vefsíðunni er skipt eftir fræðasviðum Háskóla Íslands og er hægt að leita eftir nafni, rannsóknargrein, deild og útskriftarári. Þegar svið er valið birtast doktorsnemar frá árunum 2010-2024. Þaðan er hægt að takmarka leitina með því að smella á deild og/eða slá inn leitarorð. Þegar smellt er á mynd af brautskráðum doktorum opnast ný síða sem inniheldur m.a. upplýsingar um doktorsverkefni viðkomandi. Vefsíðan birtir almennar aðgengilegar upplýsingar og uppfyllir kröfur Háskóla Íslands um persónuvernd og gagnasöfnun.


Vefsíðan var fjármögnuð með styrk frá Vinnumálastofnun og er samvinnuverkefni Miðstöðvar framhaldsnáms, Félagsvísindastofnunar og Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands. Eyrún Lóa Eiríksdóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði, vann við gagnasöfnun og hannaði vefsíðuna, undir leiðsögn Toby Erik Wikström, verkefnisstjóra við Miðstöð framhaldsnáms og sérfræðings við Hugvísindastofnun.

Þátttakendur

Kveðja til doktora háskóla Íslands

Myndband frá 1. desember 2020