Um doktorsrannsókn Guðrúnar Ingólfsdóttur

Meginviðfangsefni rannsóknarinnar voru handrit frá 18. öld sem geyma fjölþætt efni, svokallaðar syrpur (e. miscellanies), þar sem einn skrifari eða eigandi safnar efninu og/eða mótar handritið. Rannsóknin fólst einkum í því að kanna hvað ytra útlit (t.d. skreytingar), textaval og niðurskipan, svo og hugmyndaleg tengsl textanna segði um skapara handritanna og samtíð þeirra. Litið var á skrifarana og þá eigendur sem koma að hönnun syrpnanna sem höfunda bókanna, það er að segja ytra útlits (t.d. skreytinga og skriftar), innri byggingar eða forms og efnisvals. Þannig gætu syrpurnar varpað ljósi á hugar­heim skapara sinna, rétt eins og önnur höfundarverk. Nákvæm rannsókn var gerð á fjórum syrpum, tvær voru skrifaðar af prestum, ein af alþýðukarli og ein var í eigu alþýðukonu.

Allt fram á 19. öld voru möguleikar efnakvenna til æðri menntunar vart meiri en alþýðufólks, þó að finna megi dæmi um konur sem komust með annan fótinn inn í hið lærða samfélag skólanna. Af þessum sökum tilheyrðu konur og alþýðu­fólk gjarnan sömu alþýðlegu menningunni, andstætt þeirri lærðu menningu sem sjá má í hand­ritum skólagenginna skrifara. Rannsóknin leiddi í ljós að alþýðufólk og konur, fólk sem ekki átti kost á skóla­göngu, grundvallaði þekkingu sína á hefð sem ég hef kosið að kalla almanakshefðina, en segja má að hún hafi snemma orðið hluti af menntunarprógrammi al­mennings og kvenna. Í syrpum alþýðumannsins fléttast almanakshefðin einnig saman við lærða miðaldahefð, alfræðihefðina. Það sem tengir þessar hefðir er rím eða tímatal. Skóla­gengnir menn sóttu margir til þessara hefða eins og sjá má í syrpum þeirra, enda var þekking á tímatali undirstaða farsældar á öllum sviðum mannlífsins.

Allar gegna syrpurnar einhvers konar uppfræðslu- eða menntunarhlutverki, en í sam­félagi þar sem skólaganga stóð aðeins útvöldum til boða kemur áhersla á menntun ekki á óvart. Rannsókn mín sýnir hvernig bókin eða handritið var notað á formfastan hátt til að byggja upp sjálfsmynd skrifaranna/eigendana og undirstrika hlutverk þeirra í veröldinni. Ritgerðin kom út ári 2011 í ritröðinni Studia Islandica.

Rannsóknir

 Eftir doktorspróf hefur Guðrún Ingólfsdóttir haldið áfram rannsóknum og hafa auk fræðilegra greina komið út tvær bækur eftir hana. Árið 2016 kom út bókin Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar. Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld og árið 2021 kom út bókin Skáldkona gengur laus. Erindi nítjándu aldar kvenna við heiminn.